Rótarý í hnotskurn

 

 

Neðangreindar upplýsingar byggja á samantekt Gylfa Gröndal fyrir Félagatal íslensku Rótarýklúbbanna, Reykjavík 1996, en hafa síðar verið endurskoðaðar 2003 og 2007.

 

Alþjóðlegur félagsskapur

 

Rótarýhreyfingin er alþjóðlegur félagsskapur sem vinnur að því markmiði að auka samskipti milli einstaklinga og þjóða og bæta og fegra mannlífið. Alls starfa rúmlega 32.000 Rótarýklúbbar í yfir 200 þjóðlöndum og landsvæðum og félagar í þeim eru um 1,2 milljónir talsins. Klúbbunum er skipt niður í um 530 umdæmi, og sameiginlegt aðsetur þeirra er í ríkinu Illinois í Bandaríkjunum, í Evanston, sem er í úthverfi Chicagoborgar.

 

Á köldu vetrarkvöldi

 

Bandaríski lögfræðingurinn Paul Harris (1868-1947) er upphafsmaður Rótarýhreyfingarinnar. Hann ólst upp í Vermont í Nýja Englandi, en fluttist til Chicago og setti þar á stofn málflutningsstofu. Hann var ókunnugur og vinafár í stórborginni og langaði að kynnast mönnum úr öðrum starfsgreinum. Smátt og smátt varð til sú hugmynd að stofna klúbb manna úr atvinnulífi borgarinnar. Draumurinn varð að veruleika á köldu vetrarkvöldi í byrjun febrúar árið 1905. Þá bauð Paul Harris þremur mönnum til fundar við sig: Silvester Schiele kolakaupmanni, Gustavus E. Loehr námaverkfræðingi og Hiram E. Shrey klæðskera. Fljótlega bættist fimmti félaginn í hópinn, Harry Ruggles prentari. Klúbburinn var formlega stofnaður hinn 27. febrúar 1905 og kallaðist Rótarýklúbbur Chicago-borgar. Nafnið stafaði af því að félagarnir héldu fundina á skrifstofum sínum einu sinni í senn og skiptu þannig um fundarstað vikulega ( sögnin "to rotate " þýðir á ensku " að snúast" eða " skiptast á" og nafnorðið sem af henni er leitt er "rotary"). Þegar félögum fjölgaði reyndist ekki kleift að koma saman á skrifstofum þeirra, svo að fundirnir voru haldnir í veitingasölum.

 

Grunnurinn lagður

 

Þegar á fyrsta fundinum reifaði Paul Harris hugmyndir sínar um klúbbinn, til dæmis varðandi skipulag hans, og á þeim grunni stendur hreyfingin enn. Aðeins einn félagi mátti vera úr hverri starfsgrein atvinnulífsins. Elsta félagaskráin er frá lokum ársins 1905, og á henni eru þrjátíu nöfn, en síðan breiddist hreyfingin út og átti vaxandi gengi að fagna. Árið 1908 var annar klúbbur stofnaður í San Francisco, árið 1909 var fimm nýjum klúbbum komið á fót, og þegar fyrsta ársþingið var haldið 1910 voru klúbbarnir orðnir sextán. Stofnað var Landssamband Rótarýklúbba og Paul Harris kjörinn forseti þess. Ritari varð Chesley L. Perry, en hann gengdi síðan starfi aðalritara eða framkvæmdastjóra samfellt í 32 ár. Paul Harris þakkaði honum mest skipulagningu hreyfingarinnar og nefndi hann byggingameistara hennar.

 

Til annarra landa

 

Árið 1911 markar tímamót í sögu Rótarýhreyfingarinnar, en þá haslar hreyfingin sér völl utan Bandaríkjanna. Það ár hefja þrír klúbbar starfsemi sína í Evrópu: í London, Dublin og Belfast. Áður hafði Paul Harris gert misheppnaðar tilraunir til að stofna klúbb í Winnipeg í Kanada, en það tókst þetta sama ár. Á landsþinginu 1912 var nafni samtakanna breytt, þar sem hreyfingin var orðin alþjóðleg, og þau nefnd Alþjóðasamband Rótarýklúbba, The International Association of Rotary Clubs. Árið 1922 var heitið stytt í AlþjóðaRótarý eða Rotary International. Næstu árin óx hreyfingin jafnt og þétt um allan heim, og heimstyrjöldin fyrri dró ekki úr útbreiðslunni. Árið 1919 var klúbbur númer 500 stofnaður, og á þriðja áratugnum festi hreyfingin rætur í Suður- og Mið-Ameríku, Afríku, Ástralíu og Asíu.

 

Rótarý-merkið

 

Fyrsta merki sitt eignaðist Rótarýhreyfingin þegar á stofnárinu 1905. Einn af félögum klúbbsins í Chicago, M. Bear leturgrafari, teiknaði vagnhjól á hreyfingu í rykmekki, sem átti að tákna siðmenningu og framfarir. Þetta merki notuðu flestir klúbbar í einhverri mynd fyrstu áratugina. Seinna kom tannhjólið til sögunnar, og árið 1929 var núverandi merki endanlega samþykkt: tannhjól með ásgati, sex pílárum og 24 tönnum.

 

Fyrirmynd annarra

 

Rótarýhreyfingin hefur orðið fyrirmynd annarra alþjóðlegra klúbba með keimlík markmið og tilgang, eins og til dæmis Kiwanis-hreyfingarinnar, sem stofnuð var 1915 og Lions-klúbbanna, sem hófu starfsemi sína 1917.

 

Markmið og tilgangur

 

Í fyrstu hugðist Paul Harris einungis stuðla að bættu siðferði og bræðralagi í viðskiptalífinu, en ekki leið á löngu uns til varð hugsjón, sem hafði víða skírskotun, og féll í góðan jarðveg hjá mönnum af ólíku þjóðerni og trúarbrögðum um allan heim.

 

Þjónustuhugsjón

 

Á ársþingi í Portland 1911 kom fram í ræðu eins félaga setningin: "Sá uppsker mest sem þjónar best" og annar sagði þessi fleygu orð: "Þjónusta ofar eigin hag". Síðari setningin er enn kjörorð Rótarýfélaga og hornsteinn þjónustuhugsjónarinnar, sem hreyfingin byggir starf sitt á. Kjarni hennar er sá að vilji til að þjóna öðrum sé undirstaða allra starfa, ef leysa á þau vel af hendi, og frumskilyrði þess að unnt sé að setja sig í spor annarra manna, skilja þá og veita þeim hjálp og gleði.

 

Fjórar þjónustubrautir

 

Merkum áfanga var náð árið 1926, þegar tveimur Rótarýfélögum í London datt í hug, er þeir gengu sér til skemmtunar á sunnudagsmorgni, að innan hreyfingarinnar skyldu vera fjórar þjónustubrautir: Klúbbþjónusta, starfsþjónusta, þjóðmálaþjónusta og alþjóðaþjónusta. Þessi skipting var samþykkt á ársþinginu 1927, og á henni hefur síðan starf Rótarýfélaga byggt í stórum dráttum.

 

Fjórprófið

 

Fjórprófið svokallaða er eins konar boðorð Rótarýfélaga og stuðlar að heiðarlegum samskiptum milli einstaklinga og þjóða. Rótarýfélaginn Herbert J. Taylor í Chicago setti það fyrst fram árið 1933, og Rotary International tók það síðan upp sem einkunnarorð í starfsþjónustu. Það hljómar þannig:

 

Er það satt og rétt?

Er það drengilegt?

Eykur það velvild og vinarhug?
Er það öllum til góðs?
 

Fjórprófið er þannig í útfærslu Einars Ragnarssonar, Rótarýklúbbnum, Reykjavík-Árbær:

 

Er það satt og er það rétt? 

Er það siður fagur?
Verður af því vinsemd þétt?
Vænkast allra hagur?

 

Veitir útsýni

 

Árið 1937 vakti hinn ungi Rótarýklúbbur Reykjavíkur athygli innan hreyfingarinnar, þegar félagi í honum vann fyrstu verðlaun í alþjóðlegri ritgerðarsamkeppni um efnið: "Rótarýklúbburinn. Hvert er markmið hans?" Þetta var dr. Guðmundur Finnbogason landsbókavörður og prófessor. Upphaf ritgerðar hans er á þessa leið og er enn í fullu gildi:

"I know where Rotary´s going,

it's going to lunch.

Bernard Shaw

Þekking Bernard Shaw´s er góð og gild það sem hún nær. Það er þekking áhorfandans, er sér Rótarýmenn ganga til sameiginlegs hádegisverðar einu sinni í viku. Það gera þeir. Og þeir verða betri félagar af því að eta saman. Það hafa menn orðið á öllum öldum í öllum félögum. En samát er ekkert séreinkenni Rótarýs, heldur hitt, hverjir þar eta saman. Í hverjum Rótarýklúbbi mega vera allt að 5 félagar fyrir hverja starfsgrein á staðnum. Ef Rótarýklúbbur telur fleiri en 50 virka félaga mega þó allt að 10% þeirra vera fulltrúar sömu starfsgreinar. Klúbburinn er því úrval hins starfandi mannfélags, er hann lifir í. Og hann á að vera síbatnandi úrval, því að markmiðið er að gera félagana æ betri þjóna starfa sinna, klúbbs og þjóðfélags. Til hvers starfs þarf nokkurt sérhæfi. En sérhæfinu hættir til að þrengja sjónarsviðið. Rótarýklúbbur veitir útsýni. Hann bindur fulltrúa hinna sundurleitu starfa saman í bræðralag, þar sem hver kynnist starfi og áhugamálum annars og fær þar með skilning á sambandi starfsgreinanna og samstillingu.

 

Rótarý á Íslandi

 

Rótarýhreyfingin barst til Íslands á kreppuárunum. Fyrsti klúbburinn var stofnaður í höfuðborginni hinn 13. september árið 1934 og nefndist Rótarýklúbbur Reykjavíkur. Nú starfa 29 klúbbar á landinu og félagsmenn eru um 1190.

 

Brautin rudd

 

Fyrsta tilraun til stofnunar Rótarýklúbbs hér á landi mun hafa verið gerð um 1920 og stóð fyrir henni Rótarýklúbburinn í Hull í Englandi. Ráðgert var að stofna klúbbin í Hafnarfirði, en af því varð ekki, enda var á þeim tíma ekkert samkomuhús eða veitingastaður í bænum. Árið 1933 eða snemma árs 1934 barst Ludvig Storr, ræðismanni Dana í Reykjavík, fyrirspurn frá félögum í Rótarýklúbbi Kaupmannahafnar þess efnis, hvort unnt væri að stofna klúbb á Íslandi. Ludvig Storr stakk upp á að Knud Zimsen, fyrrum borgarstjóri í Reykjavík, tæki málið að sér og sú varð raunin. Tveir Rótarýfélagar frá Hannover í Þýskalandi og Helweg-Mikkelsen lyfsali og félagi í Rótarýklúbbi Kaupmannahafnar áttu drýgstan þátt í því að Rótarýklúbbur Reykjavíkur var stofnaður 13. september 1934, en í honum voru upphaflega 23 félagar. Stofnbréf handa klúbbnum var samþykkt í Chicago 31. mai 1935; hann var númer 3842 og tilheyrði 75. umdæminu, sem var Danmörk.

 

Sérstakt umdæmi

 

Fleiri klúbbar voru stofnaðir hér á landi næstu árin: á Ísafirði og Siglufirði 1937, á Akureyri 1939, Húsavík 1940 og í Keflavík 1945. Þegar samband Íslands og Danmerkur rofnaði vegna heimsstyrjaldarinnar síðari, tóku íslensku klúbbarnir upp beint samband við aðalskrifstofuna í Bandaríkjunum. Þegar á árinu 1941 var tekið að huga að því, hvort Ísland gæti orðið sérstakt umdæmi, en beiðni þess efnis fékk ekki byr undir vængi fyrr en eftir lýðveldisstofnunina 17. júni 1944. Þegar Danir sýndu málinu vinsemd og samþykktu aðskilnaðinn, var ekkert því til fyrirstöðu að ósk okkar yrði uppfyllt. Það tók þó tíma og kostaði ferðalög og skriffinnsku, sem sérstök undirbúningsnefnd innti af höndum, en hún var skipuð þeim Guðmundi Hlíðdal, Steingrími Jónssyni og Knud Zimsen. Ísland varð sérstakt umdæmi frá 1. júlí 1946 og hlaut þá númerið 74, en nú er það 1360. Fyrsti umdæmisstjórinn var dr. Helgi Tómasson, en annar í röðinni var Óskar J. Þorláksson. Þeir gengdu báðir embættinu tvö ár hvor, en síðan hafa umdæmisstjórar starfað í eitt ár. Torfi Hjartarson, ritari Rótarýklúbbs Reykjavíkur, lauk skýrslu sinni um starfsemi klúbbsins starfsárið 1945-1946 með þessum orðum: "Umdæmisnefndin hefur leyst af hendi mikið starf og gott, og er það ekki síst henni að þakka, að íslensku klúbbarnir geta nú heilsað nýju starfsári sem sjálfstætt íslenskt Rótarýumdæmi.

 

Vöxtur og viðgangur

 

Á árinu 1946 voru klúbbarnir hér á landi aðeins sex, en næsta áratuginn fjölgar þeim ört. Þá eru átta klúbbar stofnaðir: Í Hafnarfirði 1946, á Akranesi 1947, Sauðárkróki og Selfossi 1948, í Borgarnesi 1952, Ólafsfirði og Vestmannaeyjum 1955 og Stykkishólmi 1956.

Og áfram heldur vöxtur og viðgangur íslensku Rótarýhreyfingarinnar. Á sjöunda áratugnum eru stofnaðir sjö nýir klúbbar: í Kópavogi 1961, Reykjavík-Austurbæ 1963, í Neskaupstað, á Héraði og í Garðahreppi 1965, Rangárþing 1966 og Ólafsvík 1968. Síðan dregur úr fjölguninni á áttunda og níunda áratugnum; stofnaður er klúbbur á Seltjarnarnesi 1971, í Mosfellssveit 1981 og tveir nýir í Reykjavík, í Breiðholti 1983 og Árbæ 1990. Sama ár hætti Siglufjarðarklúbburinn störfum, en síðan hafa 6 klúbbar verið stofnaðir: Rótarýklúbbur Eyjafjarðar 1991, Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg 1995, Rótarýklúbburinn Straumur, Hafnarfirði 1997,  Rótarýklúbburinn Borgir, Kópavogi 2000, Rótarýklúbburinn Reykjavík-Grafarvogur 2001 og Rótarýklúbburinn Reykjavík International 2005. Rótarýklúbbur Stykkishólms hætti störfum 2001.

 

Inner Wheel

 

Konur Rótarýfélaga hafa víða stofnað til félagasamtaka sem nefnast Inner Wheel. Nafnið skírskotar til merkis Rótarýhreyfingarinnar og hefur það ekki verið þýtt fremur en Rótarý. Þessi hreyfing er alþjóðleg, en á uppruna sinn að rekja til Bretlands. Árið 1920 komu saman nokkrar eiginkonur Rótarýmanna í Manchester á Englandi, og tilgangurinn var að finna leið til að styðja við bakið á Rótarýklúbbunum. Kynni þessara kvenna urðu síðan til þess að fyrsti Inner Wheel-klúbburinn var stofnaður í Manchester árið 1924. Alþjóðleg samtök voru stofnuð árið 1967. Hingað til lands barst Inner Wheel-hreyfingin árið 1974, þegar Ingibjörg Guðmundsdóttir lyfjafræðingur beitti sér fyrir stofnun Inner Wheel-klúbbs Reykjavíkur hinn 15. mars það ár. Fundir eru venjulega haldnir einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina. Fundarsókn er ekki skylda. Stjórn klúbbanna skipa forseti, varaforseti, ritari, gjaldkeri og fráfarandi forseti. Auk þess eru í nokkrum klúbbum erlendir bréfritarar. Hver stjórn situr í eitt starfsár. Hver klúbbur hefur algerlega frjálsar hendur varðandi tilhögun starfsemi sinnar. Markmið Inner Wheel eru að auka sanna vináttu, efla mannleg samskipti og auka alþjóðlegan skilning, og koma þau meðal annars fram í gagnkvæmum heimsóknum klúbbanna hvers til annars og bréfaskiptum við erlenda klúbba. Ungu fólki og nemendum frá öðrum löndum eru gefin tækifæri til að dvelja á heimilum félaga í þeim tilgangi að kynnast viðkomandi landi og þjóð. Klúbbfélagar geta sótt fundi hjá Inner Wheel hvar sem er, hvort sem er á Íslandi eða í öðrum löndum, og hafa klúbbarnir handbók þar sem upplýsingar er að finna um alla Inner Wheel- klúbba. Nú starfa níu slíkir klúbbar hér á landi: Í Reykjavík (stofnár 1974). Akureyri(1975), Hafnarfirði (1977), Keflavík (1977), Selfossi (1978), Borgarnesi (1984), Reykjavík-Breiðholti (1984), Kópavogi (1987), og Inner Wheel Garðar (1994).

 

Konur í Rótarý

 

Árið 1987 samþykkti Rotary International að veita konum aðgang að Rótarýhreyfingunni, og síðan hefur um þriðjungur allra klúbba í heiminum tekið inn konur. Konur eru nú í mörgum Rótarýklúbbum á Íslandi: Fyrstir til að taka inn konur voru klúbbarnir á Akranesi, Borgarnesi, Reykjavík-Miðborg og í Vestmannaeyjum. Nú hafa flestir klúbbar tekið inn konur og eru þær alls 190 talsins.

 

Rótarýumdæmið á Íslandi

 

Hálf öld er liðin frá því að íslenska Rótarýumdæmið var stofnað hinn 1. júlí 1946. Reynt hefur verið að fá alla klúbba landsins til að leggja til umdæmisstjóra.

 

Alþjóðlegur embættismaður

 

Í sérhverju Rótarýumdæmi sameinast klúbbarnir, sem eru á því svæði sem umdæmið nær yfir, og starfa í samræmi við stjórnskipulag alþjóðahreyfingarinnar. Forystu hefur umdæmisstjórinn sem er embættismaður hreyfingarinnar og hefur það hlutverk að liðsinna klúbbunum. Umdæmisstjórar eru tilnefndir í hverju umdæmi fyrir sig og kosnir til eins árs í senn tvö ár fram í tímann.

 

Umdæmisráð

 

Umdæmisstjórinn hefur sér til fulltingis umdæmisráð sem aðstoðar hann við töku ákvarðana og framkvæmd mála. Ráðið skipa: starfandi umdæmisstjóri, sem er formaður ráðsins, fyrrverandi umdæmisstjóri, tveir verðandi umdæmisstjórar og þrír fyrrverandi umdæmisstjórar. Umdæmisstjóri sér um umdæmisþing í lok starfsárs síns.

 

Umdæmisstjórar frá upphafi

 

Hér fer á eftir skrá um þá menn sem gengt hafa embætti umdæmisstjóra frá upphafi ásamt staðnum þar sem umdæmisþing var haldið hverju sinni:

1946-47

Helgi Tómasson, Reykjavík

Reykjavík

1947-48

Helgi Tómasson, Reykjavík

Akureyri

1948-49

Óskar J. Þorláksson, Siglufirði

Reykjavík

1949-50

Óskar J. Þorláksson, Siglufirði

Akureyri

1950-51

Friðrik J. Rafnar, Akureyri

Þingvellir

1951-52

Kjartan Jóhannsson, Ísafirði

Þingvellir

1952-53

Friðrik A. Friðriksson, Húsavík

Mývatnssveit

1953-54

Alfreð Gíslason, Keflavík

Reykjavík

1954-55

Þorvaldur Árnason, Hafnarfirði

Reykjavík

1955-56

Helgi Elíasson, Reykjavík

Reykjavík

1956-57

Árni Árnason, Akranesi

Bifröst

1957-58

Sigurður Pálsson, Selfossi

Þingvellir

1958-59

Helgi Konráðsson, Sauðárkróki

Sauðárkrókur

1959-60

Halldór Sigurðsson, Borgarnesi

Bifröst

1960-61

Jóhann Jóhannsson, Siglufirði

Siglufjörður

1961-62

Sverrir Ragnars, Akureyri

Akureyri

1962-63

Einar Bjarnason, Reykjavík

Bifröst

1963-64

Steingrímur Jónsson, Reykjavík

Bifröst

1964-65

Haraldur Guðnason, Vestmannaeyjum

Vestmannaeyjar

1965-66

Sverrir Magnússon, Hafnarfirði

Laugarvatn

1966-67

Sigurgeir Jónsson, Kópavogi

Laugarvatn

1967-68

Lárus Jónsson, Ólafsfirði

Akureyri

1968-69

Guðmundur Sveinsson, Borgarnesi

Bifröst

1969-70

Ólafur G. Einarsson, Garðabæ

Garðabær

1970-71

Ásgeir Þ. Magnússon, Rvík-Austurbær

Laugarvatn

1971-72

Vilhjálmur Þ. Gíslason, Reykjavík

Laugarvatn

1972-73

Ólafur Guðmundsson, Stykkishólmi

Laugarvatn

1973-74

Hjörtur Eiríksson, Akureyri

Akureyri

1974-75

Valgarð Thorodsen, Hafnarfirði

Laugarvatn

1975-76

Gissur Ó. Erlingsson, Fljótdalshéraði

Hallormsstaður

1976-77

Jóhann Pétursson, Keflavík

Laugarvatn

1977-78

Jón R.Hjálmarsson, Rangárþingi

Þingvellir

1978-79

Kristinn G. Jóhannsson, Ólafsfirði

Akureyri

1979-80

Baldur Eiríksson, Akranesi

Laugarvatn

1980-81

Jón Gunnlaugsson, Seltjarnarnesi

Laugarvatn

1981-82

Pétur M. Þorsteinsson, Kópavogi

Kópavogur

1982-83

Marteinn Björnsson, Selfossi

Selfoss

1983-84

Ólafur E. Stefánsson, Garðabæ

Garðabær-Rvík

1984-85

Sigurður Ólafsson, Reykjavík

Reykjavík

1985-86

Húnbogi Þorsteinsson, Borgarnesi

Borgarnes

1986-87

Arnbjörn Kristinsson, Rvík-Austurbær

Hveragerði

1987-88

Stefán Júlíusson, Hafnarfirði

Hveragerði

1988-89

Jón Arnþórsson, Akureyri

Akureyri

1989-90

Ómar Steindórsson, Keflavík

Keflavík

1990-91

Eiríkur Hans Sigurðsson, Mosfellssveit

Hveragerði

1991-92

Loftur J. Guðbjartsson, Rvík-Breiðholti

Hveragerði

1992-93

Gestur Þorsteinsson, Sauðárkróki

Sauðárkrókur

1993-94

Jón Hákon Magnússon, Seltjarnanesi

Hveragerði

1994-95

Ólafur Helgi Kjartansson, Ísafirði

Ísafjörður

1995-96

Ásgeir Jóhannesson, Kópavogi

Kópavogur

1996-97

Jón Pétursson, Egilsstöðum

Egilsstöðum
1997-98

Birgir Ísleifur Gunnarsson,

Reykjavík

1998-99

Sváfnir Sveinbjarnarson, Rangárþing

Hvolsvöllur

1999-00

Snorri Þorsteinsson, Borgarnesi

Bifröst

2000-01 Steinar Friðgeirsson, Rvík-Árbæ Reykjavík
2001-02 Eysteinn Tryggvason, Húsavík Mývatnssveit
2002-03 Sigurður R. Símonarson Vestmannaeyjar
2003-04 Bjarni Þórðarson Hafnarfjörður
2004-05 Egill Jónsson Garðabær
2005-06 Örn Smári Haraldsson Seltjarnarnes
2006-07 Guðmundur Björnsson Reykjanesbær

 

Skrifstofa umdæmisins

 

Skrifstofa Rótarýumdæmisins er að Suðurlandsbraut 54 í Reykjavík og er opin virka daga klukkan 10-12 árdegis. Síminn er 568-2233 (símsvari utan skrifstofutíma) og faxnúmer er 568-2242. Tölvupóstur rotary@simnet.is. Skrifstofustjóri er Margrét Sigurjónsdóttir.- Rótarýhreyfingin eignaðist sitt fyrsta húsnæði á Barónsstíg 43 í Reykjavík. Árið 1982 var keypt íbúð að Skólavörðustíg 21, og þar var skrifstofan til ársloka 1991. Um hálfs árs skeið var skrifstofan í leiguhúsnæði í Hafnarfirði, en 17. júlí 1992 flutti hún í nýtt skrifstofuhúsnæði að Suðurlandsbraut 54. Rótarýumdæmið á 85% húsnæðisins, en Rótarýklúbbur Reykjavíkur 15% - Umdæmisskrifstofan gegnir mikilvægu hlutverki. Hún er umdæmisstjóra til aðstoðar, annast tengsl við klúbbana hér innanlands, skil gagnvart Rotary International og almenna fyrirgreiðslu fyrir Rótarýfélaga og aðra sem eiga erindi við hreyfinguna. Á skrifstofunni er einnig að finna ýmis upplýsingarit og bækur um Rótarýhreyfinguna.

 

Rótarýklúbbur að starfi

 

Í Rótarýklúbbi hittast félagar vikulega á ákveðnum stað og stundu og snæða saman málsverð. Með því móti er leitast við að ná höfuðtilgangi hreyfingarinnar sem er að stuðla að auknum kynnum sem haft geta í för með sér betri skilning og aukið vinarþel manna á milli. Klúbbfundirnir eru kjarninn í starfsemi Rótarýhreyfingarinnar. Þar geta nýjar hugmyndir fæðst, gagnlegar umræður farið fram og góðar fyrirætlanir hlotið hljómgrunn.

 

Skylda að sækja fundi

 

Rótarýhreyfingin leggur félögum sínum skyldur á herðar. Þeir verða til dæmis að mæta á fundum í hverri viku ef þess er nokkur kostur. Félagar teljast hafa sagt sig úr klúbbnum, ef þeir láta undir höfuð leggjast fjórum sinnum í röð að sækja fundi, án þess að gera grein fyrir fjarvistum. Hið sama verður uppi á teningnum ef þeir sækja minna en 50 af hundraði allra funda, nema það sé gert með samþykki stjórnarmanna. Geti Rótarýfélagar ekki sótt fund í eigin klúbbi eru þeir hvattir til að bæta það upp með heimsóknum í aðra Rótarýklúbba innanlands sem utan. Við sérstakar aðstæður getur stjórn Rótarýklúbbs veitt félaga undanþágu frá mætingarskyldu, til dæmis Rótarýfélögum sem dveljast á sjúkrastofnunum eða eiga við langvarandi veikindi að stríða. Sömuleiðis öldnum Rótarýfélögum sem óska eftir því sérstaklega. Rótarýfélagi skal sjálfur færa fram ósk og rökstuðning vegna undanþágu frá mætingarskyldu.

 

Erindi og umræður

 

Forseti stjórnar fundi hverju sinni og ber forsetakeðju um háls. Aðrir embættismenn eru ritari, gjaldkeri, stallari, sem tekur á móti í fundarbyrjun, og varaforseti (verðandi forseti) sem tekur við forsetaembættinu næst. Á fundunum eru flutt erindi um margvísleg efni, oft fræðandi og umhugsunarverð, og að þeim loknum fara gjarnan fram umræður. Nefndum klúbbsins eða einstökum Rótarýfélögum er venjulega falið það hlutverk að sjá um fundarefni og þeim er ætlað að útvega fyrirlesara á ákveðna fundi starfsársins. Undirbúning og skipulagningu Rótarýfunda annast gjarnan settur dagskrárstjóri í samráði við forseta. Oftast fellur það í hlut varaforseta (verðandi forseta) að gegna embætti dagskrárstjóra. Mikilvægt er að nýir félagar haldi erindi um starfsgrein sína; það snertir sjálfan kjarna Rótarýhugsjónarinnar.

 

Formót og umdæmisþing

 

Árlega skal haldin á tímabilinu 1. mars til 1. júlí samkoma verðandi forseta og ritara og annarra æskilegra þátttakenda. Verðandi umdæmisstjóri undirbýr og annast formótið í samráði við fráfarandi umdæmisstjóra. Samtímis er haldið umdæmisþing sem getur gert samþykktir í samræmi við stofnskrá Rotary International og tekur afstöðu til allra mála sem aðalstjórn Rotary International kann að beina til umdæmisþingsins. Þingið, og samkomur því tengdar, er opið öllum Rótarýfélögum og æskilegt að sem flestir taki þátt í því. Nákvæmar reglur um formót og umdæmisþing er að finna í Handbók íslensku Rótarýklúbbanna.

 

 Minnisblað umdæmisskrifstofu til klúbbstjórna

 

Forseti skal:

 

  • Undirbúa skýrslu um áætlanir klúbbs á starfsárinu og hafa hana tilbúna þegar umdæmisstjóri heimsækir klúbbinn.
  • Sjá um að umdæmisgjöld séu greidd með gíróseðli sem forseti fær sendan frá umdæmisskrifstofu. Gjalddagar eru 1. júlí og 1. janúar.
  • Yfirfara og undirrita ásamt ritara hálfsársskýrslu ( Semiannual Report) sem ritari fær senda frá Rotary International. Gjalddagar eru 1. júlí og 1. janúar.

 

Ritari skal:

 

  • Senda skýrslu um fundarsókn liðins mánaðar til umdæmisskrifsstofu fyrir 10. hvers mánaðar.
  • Tilkynna umdæmisskrifstofu og Rotary International í Zürich breytingar sem verða á félagaskrá.
  • Senda fyrir 1. janúar upplýsingar um viðtakandi forseta og ritara til umdæmisskrifstofu og skrifstofu Rotary International í Zürich, en þaðan fær ritari sérstök eyðublöð send í desember.
  • Yfirfara og undirrita ásamt forseta hálfsársskýrslu (Semiannual Report) og koma henni til gjaldkera til greiðslu. Greiðsla fer fram gegnum umdæmisskrifstofu.

 

Gjaldkeri skal:

 

  • Greiða skyldugjöld til umdæmis og Rotary International. Gjalddagar eru 1. júli og 1. janúar. Umdæmisgjöld eru greidd með gíróseðli sem sendur er til forseta en gjöld Rotary International eru greidd samkvæmt Semiannual Report sem ritari fær og undirritar ásamt forseta. Greiðslur til Rotary International fara í gegn um umdæmisskrifsstofu.
  • Greiða í Rótarýsjóðinn þau framlög sem klúbbur hefur ákveðið. Greiðsla fer gegnum umdæmisskrifstofu.

 

Rotary International

 

Aðalstjórn Rotary International er skipuð átta mönnum. Forsetinn er formaður stjórnarinnar, en með honum starfar verðandi forseti og sextán stjórnarmenn sem kosnir eru til tveggja ára samkvæmt sérstökum lagaákvæðum. Ritari aðalstjórnar er jafnframt framkvæmdastjóri samtakanna, og starfsliðið er hátt í fjögur hundruð manns.

Ómar Steindórsson í Rótarýklúbbi Keflavíkur átti sæti í stjórn Rotary International 2002-2004.

 

Skrifstofur í flestum heimsálfum

 

Forseti Rotary International fyrir starfsárið 2007-2008 er Wilfrid J. Wilkinson frá Ontario, Kanada. Aðalritari er Edwin H. Futa. Utanáskrift aðalskrifstofunnar er þessi:

One Rotary Center

1560 Sherman Avenue

Evanston, IL 60201, USA

Sími: +1 847 866 3000

Fax: +1 847 328 8554

Heimasíða á veraldarvefnum:

http://www.rotary.org

 

Auk þess eru svæðisskrifstofur í flestum heimsálfum. Skrifstofan í Sviss sér um málefni Íslands, tekur meðal annars við skýrslum og annast afgreiðslu á eyðublöðum, bæklingum og bókum um Rótarýhreyfinguna. Utanáskrift hennar er:

Rotary International Europe/Africa Office 

Witikonerstrasse 15

CH-8032 Zürich, Switzerland

 

Tengiliðir Íslands eru þessir:

Gudrun Kajblad, Senior Coordinator, sími +41 44 387 7126, netfang gudrun.kajblad@rotary.org

Helena Tengblad, Coordinator, sími +41 44 387 7130, netfang helena.tengblad@rotary.org

 

Allsherjarþing

 

Árlega er haldið allsherjarþing Rotary International, og eiga allir klúbbar heims rétt á að senda fulltrúa á það. Þar fer fram kosning forseta samtakanna og endanlegt kjör á nýjum stjórnarmönnum. Fyrsta allsherjarþingið var haldið í Chicago árið 1910, en fyrsta allsherjarþingið í Evrópu fór fram í Edinborg í Skotlandi árið 1921. Svæðismót fyrir ýmis lönd og heimshluta eru einnig haldin árlega. Síðasta allsherjarþing var haldið sumarið 2007 í Salt Lake City, USA. Næstu allsherjarþing verða haldin sem hér segir:

 

2008: Los Angeles, BNA, dagana 15.-18. júní

2009: Birmingham, Englandi, dagana 21.-24. júní

2010: Montreal, Kanada, dagana 20.-23. júní

 

Löggjafarráðið

 

Löggjafarráðið er sú stofnun innan Rotary International sem hefur vald til að setja ný lagaákvæði eða breyta lögum samtakanna. Ráðið skipa á fimmta hundrað manns, og í því eru fulltrúar frá öllum umdæmum hreyfingarinnar auk stjórnar og starfsmanna. Löggjafarráðið var stofnað árið 1934 sem ráðgefandi aðili sem vísa bæri tillögum sínum til allsherjarþings. Árið 1970 var það hins vegar gert að sjálfstæðri löggjafarstofnun sem hefur úrslitavald varðandi lagasetningar fyrir samtökin. Fundir í löggjafarráðinu eru haldnir þriðja hvert ár.

 

Tímarit

 

Árið 1911 hóf göngu sína tímarit Rótarýhreyfingarinnar, The Rotarian, og mörg önnur Rótarýblöð og tímarit koma út víðsvegar um heim. Norðurlöndin gefa til dæmis út sameiginlega ritið Rotary Norden, og við Íslendingar eigum aðild að því. Íslenskum Rótarýmönnum er ekki skylt að kaupa The Rotarian, en aftur á móti er skylduáskrift að Rotary Norden og sér umdæmisskrifstofan um greiðslu áskriftargjalda sem eru innifalin í umdæmisgjöldum.

 

RÓTARÝSJÓÐURINN

 

Rótarýsjóðurinn er voldugasta stofnun hreyfingarinnar og veitir styrki til menningar- og mannúðarstarfa á mörgum sviðum. Það var á allsherjarþinginu í Minneapolis í Bandaríkjunum 1928 sem samþykkt var að breyta lögum samtakanna á þann hátt að innan þeirra skyldi starfa sjálfstæður sjóður með sérstakri stjórn. Þar með hafði gamalli hugmynd Paul Harris og Arch Klumph verið hrundið í framkvæmd. Sjóðurinn efldist til muna eftir heimstyrjöldina síðari.  Framlög í Rótarýsjóðinn eru frjáls en umdæmisstjórar hafa óskað eftir að klúbbar greiði í sjóðinn ákveðna upphæð fyrir hvern félaga. Íslenskir rótarýfélagar hafa lagt rúmlega hálfa milljón dollara til Rótarýsjóðsins.

 

Paul Harris félagar

 

Sú tilhögun að útnefna svonefnda Paul Harris félaga gekk í gildi árið 1957. Slíkur vegsauki hlotnast þeim sem klúbbur vill heiðra fyrir mikil og góð störf og getur bæði verið um að ræða félaga eða mann utan klúbbsins. Klúbburinn greiðir 1000 dollara í Rótarýsjóðinn fyrir hvern Paul Harris félaga. Frá því að þessi tilhögun gekk í gildi árið 1957 hafa um 450 Íslendingar verið gerðir að Paul Harris félögum.

 

PolioPlus-átakið

 

Af því merka starfi, sem innt hefur verið af höndum frá því að Rótarýsjóðurinn kom til sögunnar, þekkja Íslendingar best PolioPlus-átakið sem hafið var árið 1985 og hefur borið ríkari árangur en björtustu vonir stóðu til. Upphaflega takmarkið var að safna 120 milljónum dollara til að standa straum af bólusetningu allra barna í þróunarlöndunum gegn lömunarveiki og öðrum smitsjúkdómum. Stefnt er að því að ljúka algerri útrýmingu lömunarveiki árið 2009.

 

Heimssjóður – Ráðstöfunarsjóður umdæmis

 

Frá árinu 1991 hefur Rótarýsjóðurinn skipt framlögum hvers umdæmis í tvennt. 40% renna í Heimssjóð en 60% í Ráðstöfunarsjóð umdæmisins. Heimssjóðurinn greiðir meðal annars kostnað við starfshópaskipti, óháð framlögum umdæmis, en inneign í Ráðstöfunarsjóðnum ræður því hve oft umdæmi fær að úthluta námsstyrk, sækja um mótframlagsstyrk og fleira.

 

Námsstyrkir

 

Framlög Íslendinga í Rótarýsjóðinn ráða því hve oft þeir fá úthlutað námsstyrkjum, en til þessa hafa 39 Íslendingar notið þeirra. Styrkir Rótarýsjóðsins eru til eins árs framhaldsnáms í erlendum háskóla og duga fyrir námskostnaði, uppihaldi og ferðum. Á umdæmisskrifstofu má fá upplýsingar um hvort styrkur er í boði, og sé svo þarf að sækja um hann  hálfu öðru ári áður en námstímabil hefst. Rótarýfélagar, makar þeirra, börn, barnabörn og tengdabörn koma ekki til greina sem umsækjendur.

Árið 2002 veitti Rótarýsjóðurinn í fyrsta skipti tveggja ára styrki til meistaranáms í friðarfræðum. Er gert ráð fyrir að slíkum styrkjum verði úthlutað árlega. Alls eru veittir 70 styrkir árlega og má hvert af umdæmunum 530 senda eina umsókn. Íslenskir umsækjendur urðu fyrir valinu sem styrkþegar  2002-2004 og síðan á hverju ári og er það líklega einsdæmi eða því sem næst innan Rótarýhreyfingarinnar.

 

Mótframlagsstyrkir

 

Með því að leggja fram ákveðna upphæð úr Ráðstöfunarsjóðnum til mannúðarverkefnis í erlendu Rótarýumdæmi getur umdæmi eða klúbbur sótt um jafnháa upphæð í Heimssjóðinn. Þannig hefur Rótarýumdæmið á Íslandi tekið þátt í hjálparverkefnum í Litháen og Eistlandi.

 

Starfshópaskipti

 

Rótarýumdæmi, geta óháð framlögum í Rótarýsjóðinn, sótt um fjárstuðning til starfshópaskipta eða GSE (Group Study Exchange). Tvö umdæmi skiptast á fjögurra manna hópum sem dveljast í um 4  vikur í gestgjafalandinu og kynna sér atvinnulíf og menningu þess. Þátttakendur mega ekki vera Rótarýfélagar að fararstjóranum undanskildum. Íslendingar hafa sjö sinnum tekið þátt í GSE-skiptum: sex sinnum við Bandaríkin, tvisvar við Ástralíu og einu sinni við Holland.

 

Nemendaskipti

 

Einn áhrifamesti þáttur alþjóðaþjónustu Rótarýhreyfingarinnar er nemendaskipti sem standa til boða börnum Rótarýfélaga jafnt sem öðrum. Skiptinemar þurfa að vera orðnir 16 ára en ekki eldri en 181/2 árs þann 1. september árið sem dvölin erlendis hefst. Skiptinemarnir dveljast eitt skólaár í gestgjafalandinu á heimilum Rótarýmannna eða öðrum heimilum sem þeir velja. Ætlast er til að skiptin séu gagnkvæm þannig að þeir klúbbar sem senda nemendur utan taki á móti jafnmörgum í staðinn. Umsóknarfrestur er til 1. janúar ár hvert. Æskulýðsnefnd umdæmis veitir nánari upplýsingar.

 

Sumarskipti milli fjölskyldna

 

Æskulýðsnefndin hefur milligöngu um ungmennaskipti í sumarleyfi. Ungmenni frá Íslandi, sem fær meðmæli Rótarýklúbbs, sækir um að dveljast í einn mánuð á heimili jafnaldra erlendis, og síðan kemur erlendi gestgjafinn til jafnlangrar dvalar á Íslandi. Umsóknarfrestur er til 1. janúar. Æskulýðsnefnd umdæmis veitir nánari upplýsingar.

 

Sumarbúðir

 

Æskulýðsnefnd berast árlega allmörg boð um þátttöku í sumarbúðum eða stuttum ferðum sem skipulagðar eru af Rótarýklúbbum í Evrópu. Nefndin sendir þessi boð áfram til íslenskra klúbba hverju sinni ásamt aldurstakmarki og öðrum upplýsingum.

Sumarið 2003 voru alþjóðlegar sumarbúðir hér á landi í fyrsta skipti frá 1977. Tólf ungmenni frá jafnmörgum löndum dvöldust hér í 10 daga.

 

Vináttuheimsóknir

 

Vináttuheimsóknir eru skipulagðar af nefnd sem annast alþjóðleg samskipti. Verið er að festa þessi samskipti í sessi við umdæmi í Kanada.

 

Georgíustyrkir

 

Rótarýfélagar í Georgíufylki í Bandaríkjunum veita árlega 70-80 styrki til eins árs náms í háskóla í fylkinu, og Íslendingum er boðið að sækja um þá. Umsækjendur skulu vera á aldrinum 18-24 ára, vera góðir námsmenn og hafa lokið stúdentsprófi þegar styrktímabil hefst. Börn Rótarýfélaga geta sótt um til jafns við aðra, en Georgíumenn ákveða í hvaða skóla hver styrkþegi fer. Rúmlega 50 Íslendingar hafa hlotið þennan styrk. Umsóknarfrestur er til 1. október. Nánari upplýsingar á umdæmisskrifstofu.

 

Nokkrir áfangar í sögu Rótarýhreyfingarinnar

 

1905

Rótarýklúbbur Chicagoborgar stofnaður 27. febrúar að frumkvæði bandaríska lögfræðingsins Paul Harris.

 

1910

Stofnað Landssamband Rótarýklúbba í Bandaríkjunum sextán að tölu og Paul Harris kjörinn forseti þess.

 

1911

Kjörorð Rótarýhreyfingarinnar "Þjónusta ofar eigin hag" kemur fyrst fram.

 

1912

Nafni landssambandsins breytt þar sem hreyfingin er orðin alþjóðleg og það nefnt Alþjóðasamband Rótarýklúbba, The International Association of Rotary Clubs.

 

1919

Rótarýhreyfingin nemur land í Suður-Ameríku og Asíu.

 

1921

Tvær nýjar heimsálfur bætast við, Suður-Afríka og Ástralía.

 

1922

Heiti alþjóðasamtakanna stytt í Rotary International.

 

1926

Samþykktar fjórar þjónustubrautir: klúbbþjónusta, starfsþjónusta, þjóðmálaþjónusta og alþjóðaþjónusta.

 

1928

Rótarýsjóðurinn formlega stofnaður.

 

1929

Núverandi Rótarýmerki samþykkt: tannhjól með ásgati, 6 pílárum og 24 tönnum.

 

1933

Fjórprófið kemur fyrst fram.

 

1934

Löggjafarráð Rótarýhreyfingarinnar stofnað og ber að leggja tillögur sínar fyrir allsherjarþing.

 

1934

Rótarýhreyfingin berst til Íslands, þegar Rótarýklúbbur Reykjavíkur er stofnaður 13. september.

 

1946

Ísland verður sjálfstætt Rótarýumdæmi 1. júlí.

 

1947

Látinn frumkvöðull hreyfingarinnar, Paul Harris.

 

1957

Sú tillaga að útnefna Paul Harris félaga gengur í gildi.

 

1970

Löggjafarráðið verður sjálfstæð löggjafarstofnun sem hefur úrslitavald varðandi lagasetningar.

 

1978

Áætluninni Heilbrigði, hungur og hjálparstarf hrundið af stokkunum til að minnast 75 ára afmælis hreyfingarinnar.

 

1984

Fimmtíu ára afmæli Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi.

 

1985

Átakið PolioPlus hafið til að bólusetja börn í þróunarlöndunum gegn lömunarveiki og öðrum smitsjúkdómum.

 

1986

Félagatala hreyfingarinnar nær einni milljón.

 

1987

Konum veittur félagaréttur í Bandaríkjunum.

 

1989

Löggjafarráðið ákveður að heimila öllum klúbbum að taka konur í sínar raðir.

 

1990

Tala Rótarýklúbba nær 25 þúsundum, og fyrsti klúbburinn stofnaður í Sovétríkjunum.

 

1990

Áætluninni Varðveitum jörðina hrundið af stað.

 

1995

Frú Vigdís Finnbogadóttir forseti gerist Rótarýfélagi.

 

1996

Fimmtugasta umdæmisþing Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi haldið í Kópavogi.

 

Framanskráðan kafla, Rótarý í hnotskurn, tók Gylfi Gröndal saman fyrir Félagatal íslensku Rótarýklúbbanna, Reykjavík 1996. Endurskoðað af Þ.Á. 2003